Skip to Content

Þjónusta

Hjá BioPol starfar fólk með víðtæka reynslu af ólíkum verkefnum tengdum sjávarútvegi, fiskeldi og líftækni. Við bjóðum upp á ýmsa þjónustu tengdri sérfræðiráðgjöf í sjávarútvegi og fiskeldi, úrvinnslu gagna, skýrslugerð og uppsetningu tilraunaverkefna.

Þjónustumælingar

BioPol hefur verið að koma sér upp fullkominni rannsóknarstofu og stefnir að því að bjóða upp á þjónustumælingar í auknu mæli í framtíðinni. Við höfum reynt að vanda vel til tækjakaupa og fjárfesta aðeins í þeim búnaði sem við getum ekki samnýtt með öðrum rannsóknarfyrirtækjum sem við vinnum með. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að byggja upp þjónustu við rannsóknir og vinnslu á kræklingi.

Mælingar á þörungaeitri í skelfiski.

Okkar þjónusta

Svifþörungar í sjónum eru megin uppistaðan í fæðu kræklings. Vöxtur og viðgangur þörunga er því grunnforsenda þess að hægt sé að rækta krækling. Í sjónum finnast ótal mismunandi tegundir svifþörunga sem skjóta upp köllinum á ólíkum tímum árs. Flestar eru þessar tegundir af hinu góða en þó eru til tegundir sem undir vissum kringumstæðum geta framleitt eitur. Eitrið getur svo safnast upp í skelfiski í miklu magni og gert hann óhæfan til manneldis. Eitrunum af völdum skelfisks geta fylgt mikil óþægindi og veikindi, magakveisur, öndunarörðuleikar, minnisleysi og jafnvel dauði. Því er mikilvægt að fylgjast vel með tölum og gögnum um vöktun á eitruðum þörungum áður en menn neyta villts kræklings. Hafrannsóknarstofnun Íslands sér um vaktanir á eitruðum þörungum á nokkrum stöðum við landið og nýtist það m.a þeim sem hafa áhuga á tínslu á villtri skel.

Þó tölur um fjölda eitraðra þörunga í sjó gefi ákveðnar vísbendingar þá segir það ekki endilega til um hvort eða hversu mikið kræklingur er eitraður. Því þurfa kræklingaræktendur ávallt að senda sýni til Evrópu til að fá staðfestingu á því hvort um neysluhæfan krækling sé að ræða áður en þeir uppskera. Þetta hefur reynst mönnum afar kostnaðarsamt og biðin eftir niðurstöðum oft á tíðum löng.

BioPol er fyrsta fyrirtæki á Íslandi sem býður upp á magnmælingar á þörungaeitri í skelfiski. Ef kræklingarækt á að ná fótfestu sem arðbær atvinnugrein á Íslandi er ljóst að auka þarf stuðning við greinina. Við bjóðum upp á svokölluð ELISA próf og með þeim getum við mælt þær þrjár megintegundir þörungaeiturs sem finnst við Ísland. Prófin geta nýst beint við innra eftirlit fyrirtækja og hraðað og einfaldað vinnsluferlið.

Við erum einnig umboðsaðilar fyrir fljótleg en mjög góð próf frá Jellet í Kanada. Prófin getum við selt beint til ræktenda, veitt rjáðgjöf og þjálfað starfsfólk varðandi notkun og túlkun niðurstaðna.

Prófin þykja marka tímamót í mælingum á skelfiskeitri og eru þau mjög fljótvirk (35 mín), notkunarvæn, endingargóð og ekki þarf stórt sýni til mælinga. Prófin eru meðal annars notuð sem hluti af vöktunarprógrammi í nokkrum löndum.

Þörungatalningar

Í þeim vöktunarverkefnum sem við höfum tekið þátt í höfum við m.a fylgst með magni eitraðra þörunga í sjó. Sýni eru sett í þar til gerða set-hólka og látin standa þar til allir þörungar hafa sest á botninn á glerinu. Því næst er sýnið sett á viðsnúna smásjá og þörungar taldir.

Lirfutalningar

Einn mikilvægasti þátturinn í ræktun kræklings er að lirfusafnarar séu settir út á réttum tíma. Við höfum vaktað fjölda og stærð sviflægra kræklingalirfa á nokkrum stöðum í Húnaflóa undanfarin 2 ár. Við bjóðum upp á þjónustu við talningu og mælingu kræklingalirfa í sjónsýnum.

Önnur þjónusta

Við getum einnig haft milligöngu um mælingar á ATPase- virkni í laxfiskum, Lysozyme virkni í fiskum, endochitinase og exochitinase og Noravirus.

Okkar þjónusta