Skip to Content

Háskólalestin á Blönduósi

Háskólalestin stoppaði á Blönduósi laugardaginn 14. apríl og Biopol tók þátt í sýningunni sem var haldin í félagsheimilinu. Á Biopol-básnum var fiskabúr með nokkrum trjónukröbbum, beitukóngum, ígulkerjum, krossfiskum, einum kuðungakrabba og tveimur marhnútum sem fengust í krabbagildrur í Skagastrandarhöfn. Einnig voru nokkur hrognkelsaseiði til sýnis sem voru fengin frá Háskólanum á Hólum. Gestirnir fengu að taka upp úr búrinu hin harðgerari dýr (krabba og skrápdýr) og krökkunum fannst mjög áhugavert að handleika dýrin. Flestir höfðu dálæti af hrognkelsaseiðunum og kuðungakrabbanum en það var algengt að trjónukrabbarnir vektu óhug hjá sumum enda ófrýnilegir að sjá. Í víðsjánni mátti skoða kvarnir úr fiskum og fleira smásætt eins og hrogn og hreistur fiska sem við höfðum til sýnis fyrir utan félagsheimilið en þar var líka landselshræ sem hafði flækst í veiðarfæri á Húnaflóa daginn áður. Mörgum þótti spennandi að klappa selnum og skoða hreyfana og tennurnar í honum. Einhver hafði á orði að hann væri ekki svo ólíkur hundinum sínum með mjúkan feld, veiðihár, smá dindil og klær. Við hjá Biopol þökkum Háskólalestinni fyrir þetta tækifæri, gaman að fá að vera með í vísindaveislunni þetta árið!