Skip to Content

Nýsköpunar- og sprotafyrirtækið BioPol ehf. á Skagaströnd og Háskólinn á Akureyri hafa með góðum árangri starfað saman í þrettán ár við rannsóknir í sjávarlíftækni.

Sjávarlíftæknisetrið BioPol sem stofnað var á Skagaströnd í september 2007 hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem meðal annars hafa miðað að því að kortleggja vannýtt tækifæri, til verðmætasköpunar, innan íslensks sjávarútvegs. Í dag starfa hjá félaginu átta vel menntaðir starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn. Á starfstíma félagsins hefur verið byggð upp fullkomin rannsóknaaðstaða ásamt vottuðu vinnslurými sem nýtist frumkvöðlum og smáframleiðendum.

Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á meistaranám í sjávarútvegs og auðlindafræðum. Kennsla í sjávarútvegsfræði hefur frá upphafi farið fram í samstarfi við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum og þeirra á meðal er BioPol á Skagaströnd.

Mikil ánægja hefur verið meðal forráðamanna og starfsmanna BioPol ehf. með samstarfið við Háskólann og sú ánægja er gagnkvæm. Í ljósi hefur nú verið gerður nýr samningur um áframhaldandi samstarf og fjallar hann einkum um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknaverkefni en helsti styrkleiki samstarfsins byggir á samlegð mismunandi sérfræðiþekkingar og meiri líkum á árangri með stærri rannsókna- og þróunarverkefnum.

Sameiginlega markmið beggja er að að nýta sem best sérþekkingu þá sem samningsaðilar búa yfir auk þess sem samningnum er ætlað að bæta aðgengi vísindamanna og nemenda HA að sérfræðiþekkingu og aðstöðu BioPol og aðgengi sérfræðinga BioPol að sérfræðingum HA og aðstöðu.

Í stjórn BioPol sitja fimm stjórnarmenn og þar af einn frá HA. Með þeim hætti leggur HA til verkefnisstjóra með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpun og atvinnuþróun. Starfsstöð hans er við Háskólann á Akureyri en verkefnið er fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og utanumhald rannsóknarverkefna. Allt frá stofnun BioPol hefur Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við HA sinnt þessu hlutverki.

Samningurinn tilgreinir jafnframt að BioPol getur auglýst stöðu sérfræðings sem staðsettur verður hjá BioPol á Skagaströnd en staðan er tilkomin vegna vinnu svokallaðar NV nefndar  sem starfaði fyrir Forsætisráðuneytið árið 2008.

 

Frekari upplýsingar veita:

 

Halldór G. Ólafsson

framkvæmdastjóri BioPol ehf.

Sími 896-7977

Dr. Rannveig Björnsdóttir

Forseti viðskipta og raunvísindasviðs við Háskólann á Akureyri

 

Sími: 460-8515