Skip to Content

Beitukóngur

BeitukóngurMarkmið verkefnisins var að gera frumathugun á hvort beitukóngur (Buccinum undatum) finndist í veiðanlegu magni í Húnaflóa. Verkefnið var unnið í samvinnu við Sægarp ehf Grundarfirði, Vík ehf Skagaströnd og Vör – Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð.

Reiknað var með að tækist að finna beitukóng í veiðanlegu magni mætti gera ráð fyrir að þær veiðar gætu komið minni útgerðum á svæðinu mjög til góða á tímum tekjusamdráttar vegna minnkandi veiðiheimilda. Hér væri því um að ræða nýtingu á nýrri auðlind á okkar svæði. En til þess að slíkar veiðar gætu hafist var talið nauðsynlegt að afla upplýsinga um ástand beitukóngsins á svæðinu þ.e., þéttleika, stærð, þyngd, aldur, kyn og snýkjudýrabyrði.

Trossur með beitukóngsgildrum voru lagðar á völdum svæðum á Húnaflóa. Svæðin voru valin sérstaklega með tilliti til botngerðar og dýpis þar sem líklegt þótti að beitukóng væri að finna. Aflinn sem fékkst í gildrurnar var tekinn í land og rannsakaður. Verkefnið hlaut styrki frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.

Helstu niðurstöður bentu til þess að beitukóng væri ekki að finna í miklu magni við austanverðan Húnaflóa. Einnig gáfu mælingar á kynþroska og stærð til kynna að svæðisbundin veiðistýring væri nauðsynleg ef veiðar ættu að hefjast.