Kjarnastarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna beinast m.a. að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig beinist rannsóknarstarfið að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.
Á vettvangi lífríkisrannsókna verður byggt upp samstarf við sambærilegar rannsóknarstofnanir bæði innanlands og utan. Horft verði til þess að innlendar rannsóknarstofur á þessu sviði myndi þekkingarklasa og jafnframt verði ræktað gott samstarf við erlendar rannsóknarstofnanir á borð við Scottish Association for Marine Science. Sérstaklega verði horft til þess að mynda samstarf milli rannsóknarstofa á sviði sjávarlíffræði og líftækni í Bretlandi og Noregi til þess að útbúa sameignlegar styrkumsóknir til Evrópusambandsins.
Með uppsetningu og skilgreiningu á varðveisluaðferðum og búnaði til varanlegrar og tryggrar gæslu lífsýna verði byggður upp lífsýnabanki fyrir sjávarlífverur í vistkerfi hafsins við Ísland. Við rannsóknir á vettvangi sjávarlíftækni verður lögð áhersla á að kortleggja þau verðmæti sem þekkt eru ásamt því að leita nýrra verðmæta og leita nýsköpunar og nýrra möguleika til verðmætasköpunar úr sjávarfangi t.d á vettvangi fæðubótaefna, snyrtivara, sem og íblöndunarvara fyrir matvæla og fóðuriðnað.