A full overview of the work on lumpfish can be found here.
Umfangsmikið verkefni hófst vorið 2008 undir forystu BioPol ehf. Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd við rannsóknir á lífsháttum og hegðunarmynstri hrognkelsa (Cyclopterus lumpus). Fyrst um sinn var lögð áhersla á rannsóknir í Húnaflóa og Skagafirði en síðan hefur verkefnið tengt anga sína um allt land. Verkefnið er unnið í samstarfi við Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar, Háskólann á Akureyri, Landsamband smábátaeigenda og Hafrannsóknarstofnun Íslands. Ekki má gleyma að nefna þann ómetanlega stuðning sem smábátasjómenn um land allt hafa veitt BioPol og hefði verkefnið aldrei gengið upp án þeirra. Hægt er að segja að verkefnið sé þrítþætt. Í fyrsta lagi merkingar á hrognkelsum til að skoða far þeirra, í öðru lagi veiðar á hrognkelsum með sérhæfðum veiðarfærum til ítarlegra rannsókna í landi og í þriðja lagi að kanna hvort unnt væri að nýta hveljuna til framleiðslu á kollageni. Verkefnið miðar að því að afla frekari þekkingar á líffræði og hegðunarmynstri hrognkelsa ásamt því að leita leiða til frekari nýtingar á tegundinni. Verkefnið hefur hlotið styrki úr Verkefnasjóði Sjávarútvegsins fjárlaganefnd Alþingis og AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.
Niðurstöður verkefnisins hafa vakið nokkra athygli og er óhætt að segja að löng ferðalög einstakra fiska með ströndum landsins á hrygningartíma hafi komið mörgum á óvart. Af þeim niðurstöðum er m.a hægt að draga þá ályktun að um einn einsleitan stofn sé að ræða hringinn í kringum landið. Næstu skref í verkefninu er að skoða með erfðarfræðilegum hætti, skyldleika milli ólíkra svæða.
James Kennedy sér um rannsóknir á grásleppu.