Skip to Content

Vöktunarverkefni

Vöktunarverkefni

Í apríl 2009 fór af stað verkefni sem miðar að því að vakta fjögur mismunandi svæði í Húnaflóa með tilliti til kræklingaræktar. Svæðin sem urðu fyrir valinu eru Sölvabakki og Stapi austanmegin í Húnaflóa og Gjögur og Djúpavík á Ströndum. Um var að ræða vöktun á þeim þáttum sem skipta hvað mestu máli fyrir vöxt og viðgang kræklins og ber þar helst nefna: seltu, hitastig, magn og tegundir þörunga, vöktun á eitruðum þörungum og magn kræklingalirfa í sjó yfir sumarið. Í forsvari fyrir verkefnið var Jón Örn Stefánsson, fiskeldisfræðingur og sjómaður og fékk hann styrk úr Vaxtarsamningi Norðurlands vestra til ráðast í verkefnið. BioPol skuldbatt sig til að leggja fram vinnu í öflun sýna og veitingu sérfræðiráðgjafar.

Í apríl 2010 hófst svo annað sambærilegt verkefni í Miðfirði sem hlaut brautargengi úr Vaxtarsamningi Norðurlads Vestra. Það verkefni fékk framhaldsstyrk úr Vaxtarsamningnum og mun allavega standa til ársins 2012. Áhugasamir aðilar tengdir verkefninu settu út söfnunarlínur fyrir krækling í júlí 2010 og hefur áseta og vöxtur verið vonum framar.

Sumarið 2010 unnu tveir nemar verkefni sem tengjast vöktunar og kræklingaverkefnum BioPol. Jónas Páll Jónasson doktorsnemi við Háskóla Íslands vann verkefni sem styrkt var af AVS sjóði í sjávarútvegi og nefnist „Straumafar og umhverfisskilyrði kræklingaræktar við Norðurland – forkönnun.“

Hlynur Árni Þorleifsson vann skýrslu sem ber heitið „Forathugun á möguleikum kræklingaræktar við Húnaflóa“ og eru það niðurstöður Hlyns úr talningu á kræklingalirfum og eitruðum þörungum úr sýnum sem tekin voru á nokkrum stöðum í Húnaflóa. Hlynur var styrktur af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Bjarni Jónasson er ábyrgðarmaður verkefna tengdum vöktun og rannsóknum í kræklingarækt.