Skip to Content

Um Biopol

Forsaga og upphaf:

Í apríl 2007 hófst á vegum sveitarfélagsins Skagastrandar hugmyndavinna að stofnun sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd í samstarfi við Hjörleif Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi af undirbúnings- og stefnumótunarvinnu stofnaði sveitarfélagið sjávarlíftæknisetrið Bio Pol ehf sem kom á fót rannsóknarsetri í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Stofnfé BioPol ehf. var 7.000.000 ISK og stefnt að því að fleiri hluthafar komi að því á næstu misserum ásamt því að stofna til samstarfs og tengsla við hliðstæðar rannsóknarstofur við Atlantshaf. Halldór Gunnar Ólafsson sjávarútvegsfræðingur var ráðinn sem framkvæmdastjóri BioPol ehf. Undirritaðir hafa verið samstarfssamningar við Háskólann á Akureyri, Scottish Association for Marine Science, Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar Íslands og Selasetur Íslands.

Kjarnastarfsemi setursins byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna beinast m.a. að möguleikum á nýtingu sjávarfangs sem ekki hefur haft skilgreind not eða eiginleikar ekki verið þekktir. Einnig beinist rannsóknarstarfið að umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.

Biopol

Hlutverk og þjónusta:

Biopol

Á vettvangi lífríkisrannsókna verður byggt upp samstarf við sambærilegar rannsóknarstofnanir bæði innanlands og utan. Horft verði til þess að innlendar rannsóknarstofur á þessu sviði myndi þekkingarklasa og jafnframt verði ræktað gott samstarf við erlendar rannsóknarstofnanir á borð við Scottish Association for Marine Science. Sérstaklega verði horft til þess að mynda samstarf milli rannsóknarstofa á sviði sjávarlíffræði og líftækni í Bretlandi og Noregi til þess að útbúa sameignlegar styrkumsóknir til Evrópusambandsins.

Með uppsetningu og skilgreiningu á varðveisluaðferðum og búnaði til varanlegrar og tryggrar gæslu lífsýna verði byggður upp lífsýnabanki fyrir sjávarlífverur í vistkerfi hafsins við Ísland.

Við rannsóknir á vettvangi sjávarlíftækni verður lögð áhersla á að kortleggja þau verðmæti sem þekkt eru ásamt því að leita nýrra verðmæta og leita nýsköpunar og nýrra möguleika til verðmætasköpunar úr sjávarfangi t.d á vettvangi fæðubótaefna, snyrtivara, sem og íblöndunarvara fyrir matvæla og fóðuriðnað

Ávinningur og framtíðarsýn:

Væntanlegur ávinningur

Væntanlegur ávinningur með öflugum rekstri BioPol yrði margvíslegur. Þess er vænst að BioPol muni á næstu 5 árum ná að byggja upp nauðsynlega færni með því að hafa 5 til 7 sérfræðinga auk aðstoðarfólks og meistara- og doktorsnema þannig að fyrirtæki og sjóðir telji fýsilegt að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og þróun á sviði líftækni. Þá er þess vænst að niðurstöður verkefna setursins „leiti út á markað“ og að í framhaldinu myndist sprotafyrirtæki sem hefji framleiðslu á ýmsum vörum til neytenda eða til áframhaldandi vinnslu. Slík fyrirtæki yrðu ekki síst stofnuð á landsbyggðinni í nágrenni setursins. Þá er þess vænst að setrið tryggi forystu Íslands á nýtingu verðmæta úr sjó og sjávarfangi og geri svæðið að nk. „Silicon Valley“ á starfssviði sínu.

Biopol