Skip to Content

Gestir í Vörusmiðjunni

BioPol hefur fengið fjölda gleðilegra heimsókna í gegnum árin frá nemendum Höfðaskóla í tengslum við kennslu og til að fræðast um okkar störf. Þessa dagana er hefur skólakennslan í náttúrufræði snúist um þörunga, stóra og smáa en á því sviði erum við með nokkrar rannsóknir í gangi. Ýmsir smáþörungar voru hafðir til sýnis á rannsóknarstofunni og í því sambandi var sagt frá fæðuvefjum og flokkunarfræði og skoðað í smásjá hvernig grænukorn endurkasta rauðu ljósi undir flúrlýsingu. Krakkarnir ráku okkur ósjaldan á gat með ótal skemmtilegum spurningum sem misauðvelt er að svara.
Í Vörusmiðjunni var þarinn til sýnis og smökkunar sem lagðist jú misjafnlega í mannskapinn en þar eru öll tæki og tól til staðar til að vinna verðmæti úr þessari auðlind. Fjallað var um muninn á smáþörungum og þara og mismunandi nýtingarmöguleika sem eru í boði. Sumir krakkanna sem koma úr sveit gátu sagt okkur frá dæmum um nýtingu þara t.d. sem áburð og flestir höfðu smakkað söl og "nori" sem er notað í sushi. Bragðað var á þurrkuðum beltisþara og hrossaþara svo dæmi séu tekin en þessar tegundir mynda miklar breiður á grunnsævi víða um landið.