Hafrannsóknastofnun og BioPol ehf á Skagaströnd hafa um langt árabil átt í samstarfi með merkingar á hrognkelsum. Árið 2018 voru merkingar framkvæmdar með tvennum hætti. Annars vegar um 200 fiskar á hefðbundinni veiðislóð inni á Húnaflóa og hins vegar um 290 ungir fiskar í alþjóðlegum makríl leiðangri norður og suður af Íslandi og við austurströnd Grænlands (sjá mynd 1). Ekki er vitað til þess að ungviði hafi áður verið merkt með þessum hætti áður en hugsanlegar endurheimtur geta gefið mjög mikilvægar upplýsingar um vaxtarhraða hrognkelsa og hvert þau ganga til hrygningar.
Í ljósi þess verða greiddar 5000 kr fyrir hvern heilan fisk sem berst í heilu lagi til BioPol á Skagaströnd.
Mynd 1. Staðsetning merktra hrognkelsa í makríl leiðangri árið 2018.
Ef þú veiðir merktan fisk vinsamlegast hringdu í númerið sem er á merkinu ( 896-7977) og tilkynntu staðsetningu. Ekki fjarlægja merkið en komið fiskinum sem fyrst í frysti og í kjölfarið verður reynt að nálgast hann. Verðlaun verða einungis greidd ef fiskurinn skilar sér í heilu lagi og merkið er enn til staðar á honum.
Í umræddum makrílleiðangrum hafa hrognkelsi veiðst sem meðafli í efstu lögum sjávar á hafsvæði sem nær frá austur Grænlandi, allt í kringum Ísland og norður með Noregi. Mynd nr. 2 sýnir útbreiðslu fiskana. Ekki er ljóst hvar þessi fiskur hrygnir og hversu mörgum árum hann eyðir á þessum slóðum áður en hann kemur til hrygningar og hversu gamall hann verður.
Endurheimtur á merktum fiskum munu hugsanlega hjálpa til við að svara þessum spurningum.
Mynd 2. Afli hrognkelsa í makíl leiðangri 2018.