Skip to Content

Skötuselsmerkingar

Starfsmenn Biopol framkvæmdu rannsóknir á fæðu skötusels á árunum 2010-2011. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um árstíðabundið far skötusels og var því ráðist í merkingar á þeim 2013.

 

Rannsóknir BioPol á fæðu skötusels frá 2010-2011. Bjarni Jónasson, fyrrv. starfsmaður með vænan skötusel á rannsóknastofu BioPol og lítið meltir rauðmagar úr maga skötuselsins.
Mynd 1. Rannsóknir BioPol á fæðu skötusels frá 2010-2011. Bjarni Jónasson, fyrrv. starfsmaður með vænan skötusel á rannsóknastofu BioPol og lítið meltir rauðmagar úr maga skötuselsins.

 

Skötuselur (Lophius piscatorius) er botnfiskur sem tilheyrir ættbálki kjaftagelgja (Lophiiformes). Þennan fisk höfðu íslendingar aðeins fengið sem meðafla á humarveiðum úti fyrir Höfn í Hornafirði á árum áður. Skötuselurinn jók útbreiðslu sína við Íslandsstrendur umtalsvert um aldamótin og fannst í auknu mæli um allt sunnan- og vestanvert landið og dreifðist norður fyrir Vestfirði austur að Langanesi innan nokkurra ára. Útbreiðsla skötusels hefur dregist saman síðustu ár, álíka og hún var fyrir aldamót (Heimild: pdf).

Starfsmenn BioPol merktu 8 skötuseli í samstarfi við Viktor Jónsson og Guðbrand Björgvinsson í byrjun vetrar árið 2013 sem voru á netaveiðum á Snæfellsnesi og Grindavík. Aðeins voru þeir fiskar merktir sem voru um og yfir 90 cm á lengd og virtust lífvænlegir þrátt fyrir aðfarirnar uppi á dekki.

 


Mynd 2. Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol við merkingar á Skötusel á Arnari SH - 157 í Breiðafirði, nóv. 2013.

 

Átta merki voru sett út og þar af fengust gögn úr fimm merkjum. Þau öfluðu gagna í mislangan tíma, frá sjö dögum upp í 58 daga. Merkin sem notast var við eru svokölluð PSAT (Pop-up Satellite Archival Tags) frá Desert Star Systems LLC. Slík merki eru sérstök af því leiti þau fljóta upp á yfirborðið og senda upplýsingarnar sem þau safna um gervihnött (Argos gervihnattakerfið). Þau eru forritanleg svo hægt er, meðal annars, að stilla hvenær þau losna frá fiskinum og tíðni gagnaöflunar. Mælingarnar eru punktmælingar á fjögurra mínútna fresti sem skrá dýpi, hita, ljósmagn, segulsvið og hröðun.

Hér á eftir fer umfjöllun um gögn sem bárust frá tveimur merkjum. Það fyrra var í frekar stuttan tíma á viðfangi sínu og er líklegt að sá fiskur hafi drepist á meðan merkið var enn á en það seinna var öllu lengur við gagnaöflun og var sá fiskur líklega enn lifandi þegar merkið losaði sig af. Seinna merkið fannst rekið á fjöru á Suðurlandi nálægt ósi Ölfusár sem reyndist vel við túlkun gagnanna.

 

Merki A:


Mynd 3. Dýpis og hitastigsmælingar frá merki sem var í um 12 daga á skötusel.

 

Fiskurinn kafaði niður á um 160 metra dýpi fyrsta daginn, 15. nóv. Útlit er fyrir að fiskurinn hafi verið á sundi til 20. nóv. því sjávarföll sjást ekki á dýptarmælingunum fyrr en eftir það tímabil. Þann 20. nóv. stöðvaðist fiskurinn niðri við botninn og hélt sig þar þar til merkið losnaði 27. nóv.  Hitastig var innan þeirra marka sem skötuselurinn þrífst við allan tímann.



Mynd 4. Hröðunarmælingar merkis A.

 

Þegar hröðunarmælingar merkisins eru bornar saman við dýpismælingarnar fæst eilítið meira rými til túlkunar á aðstæðum fisksins, þó ber að hafa í huga að á milli mælinga (punkta) eru fjórar mín. eða meira. Hröðunarmælingar eru mikið notaðar til að rannsaka atferli dýra í náttúrunni en til þess að fá af því skýra mynd er nauðsynlegt að tíðni mælinga sé meira en 10 mælingar á sek. Í þessari rannsókn þar sem 4 mínútur eru á milli mælinga má sjá gróflega hvort fiskurinn vísaði upp eða niður miðað við afstöðu merkisins gagnvart þyngdarafli jarðar.

Merkið var fest á bakhlið fisksins með tveimur festingum, önnur rétt aftan við haus og hin um 20 cm aftar á búknum (mynd 2). Það hefur flotholt á framendanum svo það er sjaldnast í fullkomlega láréttri stöðu jafnvel þó fiskurinn sé láréttur.
Z-ás merkisins (mynd 4) liggur eftir dýrinu endilöngu og gildi hans sýna hvort það er lóðrétt, lárétt eða eitthvað þar á milli

Þegar merkið er lárétt eru Z-gildin = 0
Þegar merkið er lóðrétt, með flotholtið upp, eru Z-gildin = 1 en ef að merkið væri lóðrétt, með flotholtið niður, væru Z-gildin = -1.

Það má því sjá á hröðunargrafinu (mynd 4) að á meðan fiskurinn er á sundi, frá 15. til 20. nóv. vísar merkið meira og minna aðeins upp á við en þegar fiskurinn sest á botninn þann 20. nóv. er merkið lárétt í nokkra daga. Á milli 23. og 24. nóv. fer merkið smám saman að leita í lóðrétta stöðu og helst þannig þar til það losar sig af fiskinum.

Merkin eru ekki föst í lykkjunum og geta snúist þess vegna eru X og Y ásarnir ekki eins áreiðanlegir og Z-ásinn. Það er því ekki ómögulegt að ytri aðstæður valdi breytingum á þeim gildum en X- og Y-ásar merkisins eru nokkuð stöðugir á meðan fiskurinn er á sundi til 20. nóv. en þá verða tveir skyndilegir snúningar og þann 23. nóv. snýst merkið nokkrum sinnum. Þegar merkið er lóðrétt 24. nóv. dansa X- og Y-gildin kringum núllið svo að merkið er þá greinilega lóðrétt síðustu dagana.

Frá 20. nóv. er hugsanlegt að fiskurinn liggi dauður á hlið, hræætur snúi honum svo fram og til baka og að lokum snúist hræið í lóðrétta stöðu á nokkrum klukkustundum þann 24. nóv. Það er einnig hægt að hugsa sér að fiskurinn sé lifandi og liggi á hallandi undirlagi t.d. upp við grjóthnullung og snúi sér eftir hentisemi. Merkið losnaði of fljótt af fiskinum til að mögulegt væri að skera úr um hvort hann var dauður eða lifandi.

 

Merki B:

Lítill hluti gagnanna (minna en 10%) frá hverju merki skilar sér ekki rétt þegar sent er gegnum gervihnött. Þar sem eitt merki fannst að auki rekið í fjöru var hægt að bera saman gögnin sem það sendi við gögnin sem það bar. Gögn lesin beint frá merkinu reyndust áreiðanlegri svo að hægt var að áætla staðsetningu fisksins miðað við sjávarfallalíkan (pdf). Mælingarnar sem merkið skráir eru nákvæmlega tímasettar og þar sem sjávarföllin eru vel þekkt er hægt að áætla hvar fiskurinn var staddur út frá útslagi og fasa sjávarfallabylgjunnar.

 


Mynd 5. Áætluð staðsetning skötuselsins út frá sjávarfallalíkani og tímasettum dýptarmælingum. Sleppistaður var rétt utan við Grundarfjörð (rauður kross) þann 14. nóvember 2013.

 


Mynd 6. Dýpismælingar, fiskur B. Rauðu punktarnir standa fyrir þau tilvik þegar dýpismunurinn er meiri en 5 metrar frá mælingunni áður þ.e. fjórum mín. fyrr

 

Fiskur B var merktur í lok nóvember 2013 rétt fyrir utan Grundarfjörð. Hann kafaði fljótt niður á 200 metra dýpi og var á sundi þar til hann nam staðar á þriðja degi á um 60 metra dýpi. Hann var við botninn í um 3 daga en var svo á sundi í um einn dag og hélt sig svo við botninnn næstu 3 daga á eftir. Því næst tók við um 4 daga ferðalag þar sem hann færði sig niður á 200 metra dýpi og dvaldi við botninn í um 4 daga en synti síðan af stað aftur niður á meira dýpi, settist á botninn aftur og hreyfði sig lítið þar til merkið losaði sig af honum.

 


Mynd 7. Hröðunarmælingar, fiskur B
 

Hröðunarmælingarnar sýna engar skyndilegar tilfærslur sem gætu virst óeðlilegar. Fiskur B var líklega lifandi þegar merkið losaði sig af. Áhugavert er að sjá að merkið vísar ekki niður á við nema í tveimur mælingum sem bendir til þaess að fiskurinn syndi ekki niður á við heldur láti sig sökkva niður þegar hann fer á aukið dýpi.

Merkin á yfirborði sjávar:

Eftir að merkið losnar frá dýrinu og flýtur upp getur það fyrst farið að senda upplýsingar þar sem útvarpsbylgjur berast ekki í vatni. Gögnin frá merkjunum sem bárust um gervihött eru risjótt. Þó svo merkin framkvæmdu mælingar á 4 mínútna fresti eru margar eyður í þeim. Til þess að gögnin berist þarf gervihnöttur að vera í sjónmáli, öldurót má ekki vera of mikið og batteríið þarf að vera hlaðið en það getur hlaðist með sólarorku:

1. Gervihnöttur í sjónmáli
2. Lítið öldurót
3. Batterí nægjanlegt

Mynd 8. Tími sem líður frá því að merkin losa sig frá fiskunum þar til þau ná sambandi við gervihnött.

 

Á þessum árstíma, nóv. - feb. eru líkur á ölduróti talsvert miklar vegna vinda (hér má sjá meðalvind eftir mánuðum norður í landi). Það hamlar merkjasendingum  og einnig hamlar það því að merkið geti hlaðið sólarorku á batteríin en sólarljós er líka af skornum skammti á norðlægum breiddargráðum á þessum árstíma (mynd 8). Batteríið gæti þess vegna verið orðið tómt þegar fyrstu tvö skilyriðin eru uppfyllt. Árstíminn sem merkin okkar poppuðu upp var því ekki hentugur.

 

Það er ljóst að skötuselurinn hentar vel til merkinga af þessu tagi. Hann er stór fiskur og hægsyndur svo merkin trufla hann minna en ella á sundi þó erfitt sé að segja til um hve stórt inngrip þessar merkingar eru fyrir fiskinn. Merkin geta haft áhrif á árangur við veiðar skötuselsins þó hann hafist að mestu við þar sem lítillar birtu gætir.
Merkin voru forrituð til að losna af þegar þau höfðu verið innan 20 metra dýptarbils í 7 daga. Sá tími er of stuttur þegar um skötusel er að ræða. Í næstu merkingarferð verður þessi tímastilling tekin af.

 

Merkin ferðuðust víða eftir að þau komu upp á yfirborðið og gáfu upp GPS staðsetningu sína þar til þau eyðilögðust. Eins og fyrr sagði endaði merki B í fjöru á Suðurlandi en önnur merki týndust á hafi úti nema eitt merki sem endaði á landi í nyrst í Noregi og annað merki gaf upp síðustu staðsetningar sínar inni á firði við Suð-Austur odda Grænlands. Merkjasendingar vörðu í eitt til 3 ár eftir að þau komu upp á yfirborðið.



Mynd 9. Dæmi um rek merkjanna á yfirborðinu frá janúar til október 2014. Upphafspunktarnir eru kassar og endapunktar stjörnur (ekki eiginlegir endapunktar þar sem skráning hélt áfram) en punktunum ber að taka með fyrirvara. Merki B er rautt á myndinni en merki A er ekki á myndinni.