Skip to Content

Skagstrendingur í Þingvallavatni

 
Starfsmaður BioPol, Valtýr Sigurðsson, fór suður á Þingvelli í nýliðinni viku til að kanna möguleika á notkun neðansjávardróna við vöktun Þingvallavatns. Vöktunin er gerð af Náttúrufræðistofu Kópavogs en okkar hlutverk væri, ef af verður, að stýra kafbátnum við myndatökur á gróðurþekju botnsins. Lygnt Þingvallavatnið var þægilæg tilbreyting fyrir sjóveikan sjávarlíffræðing.
 
Skjáskot úr myndbandi sem tekið er með dróna af botni Þingvallavatns. Hvítur kaðall liggur í þumlungsdjúpu botnseti og kaðalspottar fljóta beint upp með vissu millibili.
Mynd 1. Snið sem lagt var til prófunar á drónanum. Vöxtur vatnanálarinnar var ekki kominn á skrið ennþá.
 
Markmið köfunarinnar lýtur að könnun á kransþörungnum vatnanál (Nitella opaga) í Þingvallavatni sem er vöktunarþáttur á vatnsgæðum Þingvallavatns. Líkt og segir í skýrslu frá Náttúrustofu Kópavogs (pdf-skjal) þá vex vatnanálin á botni vatnsins á dýptarsviði sem nær frá 8-22 metra dýpi og kallast það þörungabelti. 
 
Kort af þingvallavatni og umhverfi, með ör sem vísar í norður og lengdarskala í kílómetrum
Mynd 2. Þörungabeltið í Þingvallavatni er búsvæði undirstöðutegunda (m.a. hornsíla og hryggleysingja) í vatninu. Grænlituð eru dýpismörkin þar sem þörungarnir geta vaxið.
 
Þingvallavatn hefur hlýnað undanfarna áratugi, líkt og ársmeðalhiti á landinu en einnig hefur styrkur næringarefna í vatninu aukist. Af því hlýst aukið magn þörungasvifs sem gerir vatnið ekki eins tært. Þetta leiðir af sér að sólarljós getur ekki borist til botns á sama dýpi og þegar vatnið er tært. Eftir því sem skyggða svæðið á botninum stækkar því minna verður þörungabelti vatnanálarinnar. 
 
Nærmynd af hendi. Í hendinni er eitthvað sem lítur út eins og blautt gras en það er botngróður, kransþörungur sem kallast vatnanál. Á vatnanálinni er glært gums á stærð við gúmmíbangsa en það eru sniglaegg.
Mynd 3. Vatnanál með sniglaeggjum.
 
Þessi botngróðurbelti eru mikilvægur hlekkur í vistkerfi vatnsins þar sem þau veita skjól og nýtast sem búsvæði hornsíla og ýmissa hryggleysingja. Í Þingvallavatni eru tugir tonna af hornsílum sem eru aðalfæða sílableikjunnar sem á allt sitt undir þeim.